þriðjudagur, 22. apríl 2014

Doppótt eða ekki doppótt...?

Ég er tíður gestur á allskyns bloggum og heimasíðum. Maður þarf ekki alltaf að finna upp hjólið sjálfur, það er líka gaman að taka hugmyndir annara og útfæra þær á sinn hátt. Ég var að vafra á TRENDNET um daginn og sá þá hugmyndir af doppóttum veggjum. Þetta fannst mér fínt og langaði að prófa. Ég þurfti bara að finna rétta staðinn í húsinu. Það var búið að vera lengi á planinu að kaupa nýjan sjónvarpsskenk og flikka aðeins upp á sjónvarpshornið. En vegna anna höfðum við ekki komið því í verk. En núna fyrir páskana keyptum við skenkinn og skáp fyrir DVD myndirnar. Skjannahvítt og glansandi. Þegar skápurinn og skenkurinn voru svo komin upp að hvítum veggnum var það alveg ljóst að þessi veggur gat ekki verið hvítur! Hann skyldi málaður og á hann settar doppur!














Þetta er ótrúleg breyting með lítilli fyrirhöfn. Það er ekki mikið mál að mála einn vegg... Er mér sagt ;) Það er nefnilega innprentað í mig að ef kostur er á skuli maður láta fagmenn um verkin og þess vegna málaði ég ekki þennan vegg sjálf heldur fékk til þess málara. Sá er hins vegar eitthvað farinn að þreytast á því að þurfa að stökkva til í hvert sinn sem mér dettur í hug að mála eitthvað svo nú ætlar hann að taka mig í læri! Hann segir að ef ég geti lakkað húsgögn geti ég svo sannarlega málað einn og einn vegg :)
Ég tímdi hins vegar ekki að líma doppurnar á vegginn. Þetta er eitthvað svo stílhreint og fallegt svona, þær hefðu þurft að vera hvítar... En þessar sem ég keypti voru bara alls ekki hvítar!

Ég hafði þvælst inn í Söstrene Grene um daginn og þá höfðu ótrúlega fallegir og litríkir límmiðar dottið ofan í körfuna mína. Þeir eru alveg í uppáhaldslitunum mínum þessa dagana og ég bara varð að prófa... Ég veit ekki alveg með þetta svona inn í miðri stofu? Mig minnir að Gummalingur hafi sagt: "Elva, mér líður svolítið eins og í nútímaútgáfu af Hans og Grétu". Mér finnst þetta fallegt á mynd, en ég held að þetta henti frekar í barnaherbergi. Ég er samt ennþá svo hrifin af hugmyndinni um doppóttan vegg að ég ætla að verða mér út um hvítar doppur og prófa þær í kringum sjónvarpið...














Ég er svo búin að vera veik í heila 8 daga. Það á alveg óskaplega illa við mig að liggja og gera ekki neitt. Sérstaklega ef sólarvörn og sandur eru hvergi nálægt. Svo ég dundaði mér við að gera fleiri blómavasa þegar ég var farin að geta reist höfuð frá kodda...

Þessar voru bara grafnar
lengst inn í skáp og máttu
svo sannarlega við því að
öðlast nýtt líf.
Í Litalandi í Borgartúni fást
þessi sprey. Þau eru til í öllum
litum og litatónum og þekja
alveg einstaklega vel!

















Það er bara ekkert sem jafnast
á við að búa eitthvað til...
Eftir nokkrar misheppnaðar
tilraunir varð þessi
broddgöltur til!















Hlakka til næstu viku!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli