þriðjudagur, 6. janúar 2015

Gleðilegt ár og TAKK!

Mig langar til að byrja þessa færslu á því að óska ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir samfylgdina á árinu sem leið. Aldrei hefði mig órað fyrir því að svona stór hópur af fólki myndi fylgjast með brasinu í mér. Þegar ég byrjaði fyrir rúmu ári síðan hafði ég það bakvið eyrað að gefa þessu eitt ár. Ég var pínulítið smeyk um að það yrði of mikið fyrir mig að birta nýja færslu vikulega, en það varð ekki raunin. Þetta hefur flætt bara nokkuð áreynslulaust. Umferðin á síðunni hefur farið fram úr mínum villtustu vonum og þess vegna hef ég ákveðið að stækka aðeins umfang hennar. Þann 25. febrúar næstkomandi, á 35 ára afmælinu mínu, mun ég opna breytta og töluvert bætta heimasíðu, verkefnivikunnar.com. Ég er æsispennt og hlakka til að sjá hvert þetta ævintýri leiðir mig. Ég er með marga drauma fyrir árið 2015.

En að verkefni vikunnar. Sem er bara alls ekki verkefni síðustu viku heldur vikunnar fyrir jól! Ég setti mér algjörlega óraunhæft markmið einhverntíman á síðasta ári að allir fengju heimatilbúna jólagjöf frá mér þessi jól. Þetta var óraunhæft í fyrsta lagi vegna þess að ég gef fáránlega margar jólagjafir og í öðru lagi minnir mig að það hafi verið komið fram í október þegar ég ákvað þetta! Jebb, ég er mikil draumóramanneskja og í kollinum á mér er allt svo miklu einfaldara og fallegra en í raunveruleikanum :) En ég komst samt nokkuð langt með þetta og flestir fengu að minnsta kosti eitthvað heimatilbúið með í pakkann sinn.

Mér tókst til dæmis að búa til tíu sett af svona glasamottum:


Ég byrjaði á því að fara í BYKO og kaupa bara venjulegar hvítar veggflísar. Ég þvoði þær svo vel og vandlega áður en ég hófst handa.


Því næst límdi ég servíettur sem ég hafði valið á flísarnar með möttu Mod Podge. Ég lakkaði svo tvær umferðir yfir á eftir, líka með Mod Podge.



Undir glasamotturnar setti ég svo foam-blöð. Ég ætlaði að vera voða grand og setja kork undir þær en mér var lífsins ómögulegt að finna kork í þeirri þykkt sem ég vildi hafa hann.


Í lokin spreyjaði ég svo yfir herlegheitin með þessu spreyi hér, sem er vatns- og hitaþolið. Ég er ekki viss um að það þoli samt heitan pott beint af hellunni, en ég gerði margar tilraunir með heita bolla og teketil og það var allt í þessu fína!


Þessir á myndinni hér að ofan eru svolítið stærri en ég notaði nákvæmlega sömu aðferð við þá.


Nú svo var bara að pakka herlegheitunum inn í kassa frá Söstrene Grene!


Föðuramma mín hafði einhverntíman rétt fyrir jól grafið upp þessar mávastellsservíettur og gefið mér. Ekki veit ég hvað þær eru gamlar en að minnsta kosti 30-35 ára! Hún á að sjálfsögðu stellið, sem mér finnst með því fallegra sem ég hef séð! Ég á svo ótalmargar jólaminningar tengdar þessu stelli. Hún fékk að sjálfsögðu þessar:


Það hentaði ekki alveg að gefa öllum glasamottur. En armbönd og hálsmen er eitthvað sem allir nota svo ég skellti í nokkur svona:


Ég málaði nokkrar trékúlur með acryllitum frá Mörthu Stewart og blandaði með ómeðhöndluðum kúlum. Svo lífgaði ég uppá þetta með litlum koparperlum sem ég átti.



Ég gat eiginlega ekki sleppt því að gera hálsmen líka þar sem ég var svo ánægð með útkomuna á armböndunum...


Svo voru það þessar sem hvorki eru börn né fullorðnar. Þær fengu þessa útgáfu hér:



Það fóru svo að sjálfsögðu nokkur blómamen í pakkana eins eru í þessum pósti HÉR og að sjálfsögðu slatti af hekluðum tuskum og slaufum eins og þessum HÉR

Ég er byrjuð á jólagjöfunum fyrir næsta ár ;)


3 ummæli:

  1. Ekkert smá flott! Vá er ég til í svona múmín framleiðslu hehe ;)

    SvaraEyða
  2. meiriháttar hugmynd með glasamotturnar. Hef leitað mikið af glasamottum undanfarið en ekki fundið neitt sem heillar, þú ert algjörlega búin að leysa það vandamál :)

    kveðja
    Kristín S

    SvaraEyða
  3. Var að uppgötva þessa síðu hún er hreinlega snilld hlakka til að fylgjast með þér áfram.
    Kv Kolbrún

    SvaraEyða